þriðjudagur, 19. apríl 2011

Stútfull...

...af allskonar sniðugu! Á myndinni til vinstri er t.d. búið að veggfóðra hurðirnar á veggskápnum eins og var líka gert í herberginu sem ég fjallaði um hér fyrir nokkrum dögum. Myndin fyrir ofan rúmið er líklega bara gerð úr efni sem strengt er á ramma og það er mjög auðvelt að gera sjálfur (bara heftibyssa, rammi og efni). Efnið lítur út eins og bútasaumsefni og þar er önnur hugmynd sem hægt er að nýta sér þ.e. gera bútasaumsmynd á vegginn í barnaherberginu. Pokarnir sem hanga á snögunum undir veggfóðraða skápnum eru tilvaldir ef maður vill skella sér í eitthvað auðvelt saumaverkefni (ekki verra að láta börnin teikna á þá líka). Í herberginu til hægri eru líka ýmsar hugmyndir t.d. myndin yfir rúminu, hana væri hægt að gera með börnunum. Það sem þarf er filtefni, strigi eða annað efni í grunninn, skæri og lím. Svo er bara að klippa út fígúrur líma þær á efnið og ramma inn. Já, gæti meira að segja orðið framtíðar erfðagripur :) Bókahilla eins og er fyrir ofan rúmið finnst mér líka mjög falleg og gott að geta séð bækurnar, en er persónulega ekki hrifin af því að hafa þetta yfir rúminu samt. Óróarnir/loftskrautið sem er í báðum herbergjum er líka mjög fallegt að mínu mati og ég held að það ætti ekki að vera neitt voða flókið að gera eitthvað álíka. Reyni að finna leiðbeiningar og skelli þeim hér inn ef ég rekst einhverntíman á þær. En annars vona ég bara að þið finnið eitthvað sem gæti nýst ykkur í að gera barnaherbergin sem fallegust.
Myndirnar eru af Ikea Family Live og úr Bolig Magasinet.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli